| | |

Styrkir iðnaðarráðuneytis til uppbyggingar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni

Ákveðið hefur verið að veita 100 milljónum króna af byggðaáætlun 2006 – 2009 til að styrkja uppbyggingu í ferðaþjónustu og renna frekari stoðum undir uppbyggingu atvinnugreinarinnar á landsbyggðinni.


Styrkirnir skiptast í tvo flokka og er nauðsynlegt að verkefnið sé atvinnuskapandi á viðkomandi svæði.
1. Móttökuaðstaða í höfnum fyrir farþega skemmtiferðaskipa: Varið verður 30 milljónum króna til upplýsingagjafar, fegrunar umhverfis, uppsetningar þjónustuhúss o.fl.
2. Nýsköpun í ferðaþjónustu: Varið verður 70 milljónum króna til uppbyggingar á nýjum svæðum, þróunar á nýrri vöru eða þjónustu er styrkir viðkomandi svæði sem ferðamannastað. Við mat á umsóknum verður sérstaklega horft til nýsköpunargildis þeirrar vöru eða þjónustu sem sótt er um til.


Styrkir geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins.
Leitað er eftir umsóknum frá klösum í ferðaþjónustu, sveitarfélögum, fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum.
Hámarksstyrkur til einstaks verkefnis getur orðið allt að 20 milljónir króna. Verkefnin skulu að mestu unnin á árinu 2009 og verður fyrri helmingur styrksins greiddur við undirskrift samnings og seinni helmingur styrksins við verklok, enda liggi þá fyrir ítarleg skýrsla um framvindu verkefnisins sem sé í samræmi við umsókn.


Umsóknareyðublöð og frestur
Vönduðum umsóknum með trúverðugri kostnaðaráætlun skal skilað á sérstökum umsóknareyðublöðum, sem hægt er að nálgast hér á vefnum.Umsóknir sendist til:
Ferðamálastofa - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
eða á elias@icetourist.is fyrir 6. mars n.k.
Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.


Áætlað er að úthlutun verði í apríl.